Loksins naprapati á Íslandi

Oct 19, 2021

Þessi grein birtist á mbl.is 28. ágúst 2016 | Sunnudagsblað

Hvað er naprapati og af hverju höfum við ekki heyrt meira af þessari starfsgrein á Íslandi?


 Í Svíþjóð er talið að 1/3 sænsku þjóðarinnar hafi leitað til naprapata, en stéttin varð hluti af sænska heilbrigðiskerfinu árið 1994.


Naprapati hljómar eins og eitthvað dulúðugt úr sögunum um galdrastrákinn Harry Potter. Ég var því eins og eitt stórt spurningarmerki þegar mér var bent á að naprapatinn Guttormur Brynjólfsson væri búinn að opna stofu í Orkuhúsinu. Góðfúslega tók Guttormur á móti mér á stofu sinni og vildi leiða mig í allan sannleikann um starf sitt. Það voru engir galdrastafir eða töfraseyði á stofunni og hún lítur út eins og hver önnur læknastofa nema kannski örlítið bjartari og skemmtilegri.


„Í stuttu máli sérhæfir naprapati eða Doctor of Naprapathy sig í greiningu, meðhöndlun og endurhæfingu á stoðkerfinu, við notum meðal annars hnykkingar, nudd og teygjur í okkar meðhöndlun svo eitthvað sé nefnt,“ sagði Guttormur strax í vinalegum tón þegar hann sá undrunarsvipinn á blaðamanninum. En af hverju höfum við ekki heyrt af þessari starfsstétt áður hér á Íslandi?


„Það er einn annar Íslendingur menntaður naprapati og það vill svo vel til að hann var einn af stofnendum Orkuhússins. Ástæðan fyrir því að við erum ekki fleiri er kannski sú að þetta er ekki kennt á Íslandi. Ég lærði sjálfur í Svíþjóð, en þar urðu naprapatar hluti af heilbrigðiskerfinu árið 1994 og hefur nú rúmlega einn af hverjum þremur Svíum hafi á einhverjum tíma leitað til naprapata vegna meina sinna.“

Minnkum sársauka og finnum orsök meina


Sjálft naprapatanámið tekur fimm ár og auk þess að vinna sjálfstætt vinna naprapatar einnig náið með öðrum heilbrigðisstarfsmönnum, s.s. sjúkraþjálfurum og læknum. Ásamt því að draga úr sársauka og þjáningu segir Guttormur naprapata hjálpa sjúklingum að leita orsaka meina sinna með öðrum hætti en kannski læknir myndi nálgast eitthvert mein.


„Við hjálpum sjúklingum að losna við sársauka og vinnum síðan með þeim að finna réttu ástæðuna fyrir verkjum og/eða endurteknum tognunum og öðrum meiðslum, en orsökin getur leynst bæði í stoð- og taugakerfinu.

Þegar vandi sjúklings hefur verið greindur segir Guttormur meðhöndlun m.a. felast í hnykkingum, nuddi, teygjum og sérsniðnum æfingum fyrir stoðkerfisvanda viðkomandi

„Þú getur greint og læknað hné-, axlar- eða bakverki staðbundið en oftar en ekki er eitthvert annað undirliggjandi vandamál sem veldur því að sams konar vandamál koma upp í sama hnénu aftur og aftur.“


Jafnvægi fyrir líkama og sál

Naprapati vinnur ekki bara með hnykkingar heldur meðhöndlar einnig bandvefina og eitt af lykilatriðum í starfi Guttorms er að hjálpa sjúklingum sínum að ná jafnvægi á starfsemi miðtaugakerfisins.

„Heilinn okkar stjórnar allri starfsemi líkamans og þegar hann er ekki í jafnvægi getur það valdið spennu í tilteknum vöðvum sem leiðir til endurtekinnar rangrar beitingar og það getur valdið hvers konar meiðslum eða eymslum í líkamanum.“

Bak- og hálsverkir eiga t.d. oft upptök sín í heilanum að sögn Guttorms.


„Til þess að átta okkur aðeins á því hvernig heilinn virkar getum við byrjað á því að skoða svokallað „brain loop“ en það er þegar litli heilinn (e. cerebellum) sendir skilaboð til hægra eða vinstra heilahvels (e. hemisphere) sem síðan sendir skilaboð til svokallaðs heilastofns sem síðan hefur áhrif á vöðvaspennu, hreyfigetu og stoðkerfi,“ segir Guttormur og bendir á að ýmsar ástæður geti verið fyrir því að miðtaugakerfið virki ekki eins og best verður á kosið, t.d. ef litli heilinn fær mismunandi skilaboð frá hægri eða vinstri hlið líkamans.


„Ástæður fyrir því geta verið læsingar eða minnkuð hreyfigeta í liðum eða jafnvel eitthvað í miðtaugakerfinu sem veldur því að þú færð mismunandi vöðvamassa eða hreyfigetu frá einni hlið líkamans til annarrar og líkamsstaða þín verður röng.“



Unnið með frægum fótboltamönnum

Guttormur á og rekur eigin naprapatastöð í Madríd á Spáni en um tíma meðhöndlaði hann leikmenn knattspyrnufélagsins Liverpool. Ýmist flugu leikmenn til í Madríd eða hann flaug til Liverpool. „Já, það var á þeim tíma þegar Kenny Dalglish var aðalþjálfari liðsins. Knattspyrnumenn eru gott dæmi um íþróttamenn sem kljást töluvert við meiðsli, þegar líkaminn er undir miklu álagi er mikilvægt að það álag sé sem jafnast og þar kemur miðtaugakerfið mikið við sögu. Með betra jafnvægi vinnur líkaminn með lægri vöðvaspennu og við verjum liði og sinar betur,“ segir Guttormur en hann gefur að sjálfsögðu ekki upp hvaða sjúklinga hann hefur meðhöndlað.


Hins vegar er rétt að benda á að á þeim tíma sem Kenny Dalglish var með Liverpool spiluðu með liðinu menn á borð við Luis Suárez, Fabio Aurelio, Pepe Reina og að sjálfsögðu herra Liverpool, Steven Gerrard.


Spurður hvort það gefi starfsgreininni meira vægi að stórir íþróttaklúbbar leiti til naprapata segir Guttormur það að sjálfsögðu ekki skemma fyrir en bendir jafnframt á að greinin hafi vaxið ört undanfarin ár og sé orðin hluti af heilbrigðiskerfum víða um heim og sífellt fleiri rannsóknir staðfesti árangur af meðhöndlun naprapata.

„Við sjáum þetta líka bara sjálfir á okkar sjúklingum. Margir hafa verið að leita svara og lækningar víða í kerfinu áður en leitað er til okkar og þar er kannski fyrst og fremst horft staðbundið á meiðsli meðan naprapat aftur á móti meðhöndlar stoð- og taugakerfið sem eina heild.“


Loksins kominn heim.

Eftir rúmlega tveggja áratuga dvöl erlendis er Guttormur loksins kominn heim en hvað fær hann að snúa heim til Íslands þegar hann rekur stóra og virta stofu á Spáni?

„Börnin og heimþráin,“ segir hann og hlær. „Spánn er yndislegt land en mér fannst kominn tími til að koma heima og þar hafði fjölskyldan mikið að segja.“

Naprapatastöð Guttorms í Madríd er enn í rekstri og hann segir hana vera í góðum höndum.

„Það er gott fólk úti sem heldur rekstrinum gangandi og síðan flýg ég út einu sinni í mánuði. Annars er ég líka spenntur að byggja upp stofuna mína hérna á Íslandi og bæta við flóruna í íslenska heilbrigðiskerfinu.“


14 Nov, 2021
Uss...hver þarf sól, áfram Ísland.
07 Nov, 2021
Það hefur margt breist í meðhöndlun heilahristings...
07 Nov, 2021
Samkvæmt þessari rannsókn þá er samhengi á milli stærðar á sjáaldri (pupil) og gáfna.
Sjá allar fréttir
Share by: